Aðrar uppskriftir

Popp á rafmagnspönnunni

Það er mjög einfalt að poppa í rafmagnspönnunni og mun hollara en örbylgjupoppið.

Setjið olíu í kalda pönnuna og hellið maís yfir. Magnið fer eftir fyrir hve marga er poppað. Botnfylli gefur fulla pönnu. Stillið hitann á 215° og hafið smá rifu á lokinu. Bíðið þangað til síðasta baunin springur og þá er allt tilbúið. Saltið eftir smekk. Algjör snilld, allar baunir poppast og brennur ekki við.

Steikt egg

Íslenska smjörið hefur reynst best þegar spæld eru egg og þá ósaltaða smjörið (í grænum umbúðum).  Það brennur síður við með ósaltaða smjörinu. Við þurfum að nota einum yfir meðalhita á helluborði eða 190° á rafmagnspönnu.  Smjörið sett á kalda pönnuna og þegar það er bráðið er eggið sett á pönnuna.

Grjónagrautur

Innihald

  • 1 bolli hrísgrjón
  • 750 ml – 1 ltr mjólk
  • salt eftir smekk
  • miðhiti – tikk – næst lægsti hiti í smá tíma og svo lægsti

Aðferð

Skolið grjónin aðeins til að ná sterkjunni úr. Grjónin, mjólkin og saltið sett í pott og stillt á miðhita.  Magn mjólkur fer eftir því hversu þykkur grauturinn á að vera.  Fylgist vel með þegar lokið er orðið heitt, því stundum tikkar ventillinn bara einu sinni áður en mjólkin sýður upp úr. Best er að nota 3 QT (2,8 l) pottinn þar sem það er betra að hafa pottinn frekar fullan þá tikkar ventillinn betur og þá kemur mjólkin ekki upp úr ventlinum. Síðan lækkar þú niður á næsta lægsta hita (t.d. 2-3) og leyfir ventlinum að tikka aðeins og lækkar svo á lægsta hita (1). Þetta fer svolítið eftir helluborðum. Spanið er t.d. svo fljótt að virka. Þar er byrjað á 6 og lækkað svo í 3 látið malla smá stund og svo í 2- 1, en spanið er svo fljótt að kólna. Eftir að lækkað er þá er grauturinn tilbúinn eftir ca 30 mínútur.

Tortillas á rafmagnspönnu

Forhitið rafmagnspönnuna í 160°C. Rífið niður grænmeti með hníf 1 eða 2 t.d. gulrætur, brokkóli, kúrbít og ost. Smyrjið ostasósu og salsa/tacosósu á tortilluna. Dreifið grænmetinu og ostinum yfir og lokið tortillunni. Setjið á heita pönnuna (hægt að setja 3 í einu) og steikið í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Mjög gott osturinn bráðnar – vinsæll réttur hjá unga fólkinu. Það er líka gott að verka hakk, krydda með tacokryddi eða brytja niður kjúklingabringur og setja á milli ásamt grænmeti og osti. Gott að hafa ferskt salat með.

Hrísgrjón m/paprikuosti

Innihald

  • 1 laukur
  • 1 bolli hrísgrjón
  • 2 bollar vatn
  • ½ dl tómatsósa
  • salt og pipar
  • 1 paprikuostur

Aðferð:

Laukurinn skorinn smátt og steiktur upp úr smá smjöri ásamt hrísgrjónunum í 2 l potti/8.6” pönnu. Vatni, tómatsósu og kryddi (eftir smekk) bætt út í og soðið í 15-20 mín á lægsta hita eftir tikkið. Paprikuostur rifinn niður í kvörninni og settur út í (hrært saman við grjónin) síðustu 10 mín.

Pasta með camembert

Innihald

  • ½ laukur
  • 1 græn papríka
  • 1 camembert ostur
  • 2 ½ dl matr.rjómi/kókosmjólk
  • 3-4 msk rjómaostur
  • 2-3 tómatar
  • 1 bréf skinka í strimlum
  • 2 gulrætur
  • Picanta krydd
  • Pasta

Aðferð

Allt grænmetið rifið í kvörninni, nema tómatarnir, þeir eru skornir m/hníf.  Ég nota gjarnan meira grænmeti t.d. sveppi, spergilkál og blómkál.  Sett í 11” pönnu (eða rafmagnspönnu með meira magni) á miðhita.  Þegar pannan er orðin heit er lækkað á minnsta straum og grænmetið látið taka sig í nokkrar mín.  Þá er rjómanum/kókosmjólkinni hellt yfir og hitinn hækkaður í miðhita svo að suðan komi upp.  Camenbert og rjómaostur settur út í í smábitum.  Kryddað með picantakryddi eða öðru góðu pastakryddi (t.d. frá Pottagöldrum).  Tómatar og skinkubitar fara síðast úr í.  Látið krauma stutta stund.  Hrært saman við soðið pasta.

Þegar pasta er soðið í Saladmaster getur maður notað hærri hita en meðalhita þegar vatnið er soðið.  Pastað sett út í og lækkað á miðhita.  Soðið í tilskilinn tíma án loks.

Það er líka hægt að nota þá aðferð að sjóða pastað með grænmetinu, eins og í karrýkjúklingaréttinum.

Gott er að bera fram hrásalat með þessum rétti og snittubrauð eða hvítlauksbrauð.  Þessi uppskrift gerði upphaflega ráð fyrir að maður steikti grænmetið í olíu.  Svona er hægt að breyta gömlu uppskriftunum.

Rauðkál

Innihald

  • ¼ stór rauðkálshaus
  • 2 gul epli

Aðferð

Allt rifið niður í kvörninni með hníf nr. 3 og sett í  2 lítra pott eða 8,6” pönnu. Gott að kreista safa úr appelsínu yfir til að fá síruna.  Ef þú vilt að rauðkálið geymist betur þá er gott að setja smá edik.  Stillt á miðhita og lækkað niður á lægsta þegar tikkar.   Látið malla í ca 20 mínútur eða þegar þetta er tilbúið.

Ávaxtagrautur

Innihald

  • 4 jonagold epli
  • 2 bananar
  • 1-2 dl rúsínur (eftir smekk)
  • 1 msk kanill

Aðferð

Eplin rifin niður í kvörninni með hníf nr. 3. Bananarnir stappaðir niður með gaffli. Allt sett út í 3 qt pottinn og stillt á miðhita. Lækkað á lægsta þegar tikkar og mallað í ca 15-20 mínútur. Borið fram heitt eða kalt með þeyttum rjóma, ís eða rjómablandi.

Rabbabarasulta

Vissuð þið að rabbabari eru skyldur bókhveiti. Rabbarbari er líka stundum kallaður “bökuplantan” því fyrst og fremst er hann notaður í bökur (a.m.k. erlendis því hér er hann meira notaður í sultur og ætti því kannski að endurnefnast “sultuplantan”). Rabbabari inniheldur A og C vítamín og er mjög trefjaríkur. Rabbabari á að minnka hættu á krabbameini en hann hefur verið notaður í lækningaskyni í Kína síðan í eldgamla daga t.d. við bólgum í liðum, ofnæmum og til að minnka háan blóðþrýsting. Rabbabaralauf eru sögð baneitruð (innihalda efnið oxelate) og ætti ekki að borða þau.

Rabbabarasulta
Gerir um 400 ml

  • 350 gr rabbabari, þveginn og saxaður gróft
  • 100 gr döðlur, saxaðar gróft
  • 1/4 bolli agavesíróp
  • 1/2 tsk kanill
  • 1 tsk sítrónusafi

    Aðferð:

  • Setjið allt í pott og látið sjóða í um 15-20 mínútur.
  • Gott er að hræra kröftuglega í sultunni með gaffli af og til.
  • Setjið í sótthreinsaðar krukkur (sjóðið krukkur og lok í 10 mínútur).

Ris a´la mande

200 gr grautargrjón

1 líter mjólk

1 stk vanillustöng

50 gr hvítt súkkulaði

10 gr smjör

50 gr flórsykur

250 ml léttþeyttur rjómi

1 stk mandla

Sjóða grjón, mjólk og vanillu í rafmagnspottinum.  Stilla á miðhita 175° og lækka í  90° þegar tikkar.  Ef annar pottur er notaður er stillt á miðhita á hellunni og lækkað þegar tikkar.  Þegar grjónin eru klár er súkkulaðinu og smjörinu bætt út í og kælt yfir nótt.  Flórsykur og rjómi þeytt saman í létta froðu og blandað rólega saman við grjónin.  Möndlu stungið í og jólin verða fullkomin.

Hátíðagrautur

3 jonagold epli

2 bananar

1 pera

200 gr saxaðar döðlur

150 gr frosin brómber

3 tsk kanill

Epli, bananar og pera skorin með hníf nr 3 í pott (3, 4 eða 5 lítra).  Söxuðum döðlum bætt við ásamt brómberjum.  Kanil stráð yfir.  Potturinn settur á miðhita.  Þegar hann fer að tikka skal lækka niður á lægsta hita.

Grauturinn er tilbúinn ca 15-20 mínútum eftir að tikkið kom upp og er þá hrærður saman.  Gott er að bera hann fram með þeyttum rjóma eða ís.  Smakkast einnig vel kaldur

Gamaldags salat

Hvítkál, rauðkál, gulrætur, kúrbítur, sellerí, radísur og epli.

Hvítkálið skorið niður með hníf nr.4, rauðkálið með hníf nr.5, kúrbítur með hnífum 3 OG 5 (gaman að hafa mismunandi áferð), gulrætur með hnífum 4 eða 5 OG 1 eða 2, sellerí með hníf 1, radísur með hníf 4 eða 5. Ath notið ca 1/3 af rauðkáli miðað við hvítkálið.
Allar þessar uppástungur um hnífa eru ekkert heilagar, allra skemmtilegast að skera bara einhvern veginn og hafa mismunandi áferð á því sem fer í salatið.

Dressingin samanstendur af sykri, majónesi og borðediki.
Hellmann’s majones 5 matskeiðar, sykur 2 matskeiðar og borðedik 4 matskeiðar. Hrært VEL saman og hellt svo yfir salatið.

Dressingunni er að sjálfsögðu hægt að breyta yfir í gríska jógúrt/sýrðan rjóma, sætuefni í stað sykurs á borð við stevíu, xylitol eða annað og borðedik. Athugið bara að hlutföllin og/eða bragðið breytist við það.

„Scrambled“ egg

3 egg

1 msk léttmjólk

smá salt

smá paprika

smjör

Eggin eiga að vera við stofuhita. Hrærið öllu saman í skál þar til hræran verður froðukennd.

Bræðið smjör á lítilli pönnu við miðhita.  Setjið eggjablönduna út í og hrærið í öðru hverju þar til eggin þykkna.