Kökur

Kakan úr matarboðinu

Við byrjum á því að forhita pottinn á lágum hita ca. 1, þar til hann er allur orðin jafn heitur. Ekki stilla eldavélina á miðhita þegar kakan er bökuð, heldur aðeins 1 – 2 , fer eftir eldavélum. Potturinn á að vera vel volgur.

Síðan setjum við kökumix í skál.

Ef þú notar 2 ltr. pottinn þá notum við bara hálfan pakkann. Fyrst hellum við ½ pakka af þurrefnunum í skál og 2 lítil egg (má vera heil uppskrift en þá þarf stærri pott og meira grænmeti). Síðan setjum við hníf nr. 1 í kvörnina og söxum niður smá hvítkál, litla kartöflu, litla gulrót, ¼ úr epli, smá Zúkíní (kúrbít) og sellerí, (einnig er í lagi að nota annað grænmeti í stað þess sem við notum). Smyrjum pottinn að innan með olíuúða (none stick spray) og hellum kökunni í pottinn og höfum hann á sama hita allan tímann. Kakan er tilbúin á ca. 20-30 mín.   Gott er að taka lokið af og snerta kökuna til að athuga hvort hún er tilbúin. Síðan er kakan borin fram með kremi eða rjóma.  Líka gott að skella plötu af suðusúkkulaði á heita kökuna. Þá bráðnar súkkulaðið yfir kökuna.  Þetta getur þú gert við allar kökuuppskriftir.

Kökugrunnur og karamellusósa

4 egg

180 gr. sykur

250 gr. hveiti

100 gr. brætt smjör

1 dl. epla- eða appelsínusafi

1 tsk. salt

1 tsk. lyftiduft

½ tsk. Matarsódi

Sósan:

1 poki fílakaramellur

Tæplega dl rjómi

Ca 5 msk sýróp

Forhitaðu rafmagnspönnuna á 100°C. Hrærið eggin og sykurinn saman, bætið þurrefnunum útí og þá smjörinu.  Hellið síðan safanum  út í  til að fá rétta þykkt á deigið.  Úðið Pam olíuúðanum á pönnuna.   Hækkið nú hitann í 140°C.  Setjið deigið á pönnuna og bakið í ca 30 mínútur.  Kakan er tilbúin þegar hún er laus frá börmunum.   Kakan brúnast ekki að ofan.  Munið að þurrka 2-3 sinnum innan úr lokinu á meðan kakan er að bakast, því annars er hún mjög lengi að bakast.  Bræðið saman fílakaramellur, rjóma og sýróp í litlum potti á lágum hita.  Þegar kakan er tilbúin er hægt að hvolfa rafmagnspönnunni og setja hana á disk.  Síðan er sósunni hellt yfir.   Kakan smakkast best ylvolg með þeyttum rjóma eða ís.

Ananaskaka

Innihald

  • 4 egg
  • 180 gr. sykur
  • 250 gr. hveiti
  • 100 gr. brætt smjör
  • 1 tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. matarsódi
  • 1 tsk. salt
  • ½ dl. epla- eða appelsínusafi
  • 1 dós ananas

Forhitið rafmagnspönnuna á 100°. Hrærið eggin og sykurinn saman, bætið þurrefnunum út í og þá smjörinu. Hellið síðan safanum út í til að fá rétta þykkt á deigið. Úðið PAM olíuúðanum á pönnuna. Stráið kanelsykri á botninn og raðið ananas­sneiðunum á pönnuna. Hækkið nú hitann í 140°C.  Setjið deigið í botninn á pönnunni og bakið í ca 30 mín.  Kakan er tilbúin þegar hún er laus frá börmunum. Munið að þurrka raka innan úr lokinu 3-4 sinnum á meðan kakan er að bakast, því annars er hún mjög lengi að bakast. Hvolfið kökunni á kökudisk. (upside-down kaka) Hún er brún að ofan vegna kanelsins. Gott er að bera kökuna fram með ís eða þeyttum rjóma.

Þetta er sama grunnuppskrift og í eplakökunni.

Eplakaka

Innihald

  • 4 egg
  • 180 gr. sykur
  • 250 gr. hveiti
  • 100 gr. brætt smjör
  • 1 tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. matarsódi
  • 1 tsk. salt
  • ½ dl. epla- eða appelsínusafi
  • 2.stk Jona Gold epli

Forhitið rafmagnspönnuna á 100°. Hrærið eggin og sykurinn saman, bætið þurrefnunum út í og þá smjörinu. Hellið síðan safanum út í til að fá rétta þykkt á deigið. Úðið PAM olíuúðanum á pönnuna. Hækkið nú hitann í 140°C.  Skerið eplin í skífur.  Setjið deigið í botninn á pönnunni og stingið eplaskífum í deigið og bakið í ca 30 mín.  Kakan er tilbúin þegar hún er laus frá börmunum. Kakan brúnast ekki að ofan og þess vegna stráum við kanilsykri ofan á þegar hún er tilbúin.  Munið að þurrka raka innan úr lokinu 3-4 sinnum á meðan kakan er að bakast, því annars er hún mjög lengi að bakast. Gott er að bera kökuna fram með ís og ávaxtamauki.

Ef þið ætlið að gera eplamúsina með, þá er bara að skræla nokkur JonaGold epli og rífa þau niður með hníf nr. 2 eða 5. Það er gott að setja nokkur frosin jarðarber eða berjablöndu með, en má sleppa. Sjóðið  eplin alltaf í engu vatn, því þannig eru þau best.

Þess má geta að þessi uppskrift var upprunalega með 250 gr. af smjörlíki. Það má breyta öllum köku­uppskriftum og í stað olíu eða smjörlíkis má nota mjólk eða ávaxtasafa af einhverju tagi.   Bara að nota hugmyndaflugið.